Að vaða í villu...

Það fer jafnan í taugarnar á mér þegar menn kasta fram staðreyndarvillum í viðtölum og reyna svo að sannfæra aðra að það sem þeir segi sé rétt. Þetta gerðist í gær þegar Ögmundur Jónasson mætti í Kastljósið og ræddi um okurvexti banka við Sigurjón Þ. Árnason bankastjóra Landsbankans.

Ég hef lengi haft mætur á Ögmundi sem stjórnmálamanni en það tók steininn úr í gær er hann fór að tala um neikvæðar hliðar þess að bankarnir græddu peninga. Gott og vel, hver má hafa sína skoðun á velgengni annarra. Hins vegar fór Ögmundur í algjöra fjallaferð þegar hann fór að fullyrða um að lántökugjöld væru 5 % og uppgreiðslugjöld 5 %. Hann tók dæmi um 100 milljón króna lán og hvað menn þyrftu að borga til að fá þau.

Án þess að þekkja þessa hluti í þaula þá held ég að ég geti fullyrt að það er ekkert til í því að bankarnir séu að rukka inn það sem Ögmundur vildi meina í gær. Sigurjón bankastjóri þekkir þetta án efa betur en margur en Ögmundur vildi ekki taka orð Sigurjóns trúanleg og þrætti fyrir.

Góðir stjórnmálamenn verða að hlusta eins og þeir tala. Ef þeir fara með rangt mál þá er betra að leiðrétta mál sitt en að vaða í villu og svima og gera málflutning sinn klaufalegan.

Ögmundur fær ekki atkvæði mitt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Félagasamtök sem ég er í forsvari fyrir tóku lán hjá Íslandsbanka/Glitni fyrir einu og hálfu ári, með traustu veði. Við völdum Íslandsbanka eftir að hafa leitað tilboða annars staðar, enda skástu vaxtakjörin.

Ekki man ég hvað lántökugjaldið var, en það var ekki mikið undir 5%.

Á síðustu mánuðum hefur peningastaðan batnað hraðar en búist var við. Því höfum við getað greitt lánið hraðar upp en til stóð. Lánið er til tíu ára og má greiða upp án uppgreiðslugjalds eftir fimm ár, en það sem við höfum borgað inn á það núna er allt með 5% uppgreiðslugjaldi - þannig að þessi lánakjör sem Ögmundur lýsir hljóma nú ekki ósvipað því sem við höfum mátt reyna...

Stefán (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband