Lögreglan gekk of langt!

Ég var blaðaljósmyndari í ein 10 ár. Þar þurfti ég oft að glíma við allskyns aðstæður sem voru samt ekki eins og þær sem voru hjá Alþingi í gær. En ég hef lent í því að vera hrint, ýtt frá og haldið af lögreglu. Það var alltaf í aðstæðum þar sem ég reyndi að vinna vinnuna mína, sem var að skila góðri fréttamynd.

Oftast urði engir eftirmálar af þessum atburðum. Ég bar virðingu fyrir starfi lögreglunnar og flestir í lögreglunni báru virðingu fyrir mínum störfum. Það voru samt alltaf einhverjir sem urðu að sýna vald sitt og gerðu það með því að rífa í mann, ýta manni harkalega eða taka fyrir linsuna. 

Einu sinni kom ég í viðtali í sjónvarpinu útaf slíku máli en þá sauð allt uppúr á hafnarbakkanum í verkfalli sjómanna og lögreglan beitti sér heldur til of mikið. Daginn eftir hringdi Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, í mig og bað mig að hitta sig. Ég fór á hans fund hjá lögreglunni og við ræddum saman um hvað hefði gerst. Hann fór með málið áfram og hringdi í mig aftur og baðst afsökunar (þannig túlkaði ég símtalið) á framgöngu lögreglunnar. Ég var ánægður með það.

Í gær lentu ljósmyndarar í því að þeir fá yfir sig gusur af piparúða. Það er ekki að sjá á þeim myndum sem birtast hér fyrir neðan að þeir séu að gera annað en að taka myndir. Svo virðist sem lögreglan sé ekki samþykk veru þeirra þarna og því gusa þeir á þá, beint að virðist, yfir ljósmyndara við störf og yfir dýran búnað þeirra. Þetta er ótrúlegt að sjá. 

Lögreglan verður að bera virðingu fyrir störfum ljósmyndara á vettvangi. Þeir eru auðvitað fremstir til að geta náð fréttamyndum. Fréttamyndum sem eru heimildir samtímans og jafnvel sönnunargögn ef út í það er farið. Ef lögreglan ber ekki virðingu fyrir störfum blaðamanna, ljósmyndara og fréttafólks þá er lögreglan að ráðast á hornstein lýðræðisins, frjálsa tjáningu. 

Eflaust hefur ástandið verið brothætt í gær. Og eflaust kunna þessir lögreglumenn ekki að mæta samlöndum sínum með miklu afli. Þetta hefur ekki gerst síðan 1949 og þá voru flestir þessara lögreglumanna ekki fæddir. 

Ég heyrði að einn lögreglumaður hafi sagt við mótmælanda að hann hefði ekki trú á verkefninu. Að þurfa að beita valdi gegn samborgurum sem hann á svo kannski eftir að hitta í kjörbúðinni seinna um daginn. 

Verkefni lögreglunnar var erfitt. Hitinn í mannskapnum var mikill og atburðarrásin fór úr böndunum. En það afsakar ekki að lögreglan sprauti yfir fréttafólk piparúða til að losna við það. Fréttafólk og ljósmyndarar eru í fullum rétti að vinna sínu vinnu á vettvangi. Ekkert afsakar að sprauta piparúða á vinnandi fólk sem á ekki von á að fá slíkar kveðjur frá lögreglunni. Svo ekki sé talað um skemmdir á dýrum myndavélabúnaði.

Þegar ég var blaðaljósmyndari þá var lögreglan alltaf að hamra á því að við sýndum lögreglunni og störfum hennar virðingu á vettvangi. Nú þarf lögreglan að gera hið sama.

Hilmar Þór Guðmundsson
Blaðaljósmyndari

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Páll Vilhelmsson

Fréttamynd ársins 2009!

10.000 orð geta ekki lýst þessu betur. Lögreglumaðurinn sendir pipar-bununa beint í andlitið á Stjána ljósmyndara. Hér er verið að bæla niður frjálsa fjölmiðlun. "Allt uppi á borðinu!" Sveiattan.

Hver dagur sem þessi ríkisstjórn situr við völd býður hættunni heim. Hver dagur í viðbót gefur henni færi á að auka misgjörðir sínar gegn þjóðinni.

Jón Páll Vilhelmsson, 21.1.2009 kl. 15:00

2 identicon

Sammála þessu.

Held nú samt varla að lögreglan sé sérstaklega að miða út ljósmyndara per se.  En eins og ég ræddi við þig, þá eiga fréttaljósmyndarar að vera auðmerktir (vesti). Það eru fjölmargir mótmælendur sem eru að taka myndir og eru þar af leiðandi bara fyrir.

Erling (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband