Færsluflokkur: Bloggar

Einn heima...

Jæja,

 Ekkert bloggað í frekar langan tíma en hér kemur smotterí.

Ég er einn heima en fjölskyldan er í góðu yfirlæti á Vopnafirði hjá tengdaforeldrunum. Spúsan er að klára BA ritgerðina og blessuð börnin hamast í ömmunni á meðan. Ég er búinn að vera einn á Ljósvallagötunni í smá tíma og er farinn að sakna púkanna minna ansi mikið. Það er ansi einmannalegt hérna en ég geri ráð fyrir að fjölskyldan snúi aftur innan tíðar. Þangað til er kallinn að lifa piparsveinalífi, étandi úti og vakandi fram eftir öllu alla daga. 

Snáðinn talar oft við mig í síma og syngur. Prinsessan talar um allt á milli himins og jarðar og oftar en ekki er erfitt að ná henni úr símanum. 

Verður gaman að fá þau aftur í kotið. 


Á ég að nudda mallann pabbi?

Dóttir mín hún Auður er ekkert annað en æðisleg. Ég fór í grill fyrir KR leikinn í dag hjá Hilmari Þórlindssyni á fallegu heimili hans á Suðurnesjunum. Þar sá ég líka dóttur hans, þá yngri og er hún svaka krútt.

En ég borðaði grillið geyst og át líklega aðeins yfir mig. Þegar ég kom svo heim í dag þá var ég ekki alveg með magann í lagi og fékk smá meðaumkun frá fjölskyldunni (sem gaf mér reyndar tíma í að horfa á Ísland - Makedóníu hörmungina) á RÚV.

En Auður skvísa var svo góð og spurði: "Pabbi, er þér illt í mallanum?", Já sagði ég. "Þá skal ég koma eftir matinn og nudda mallann. Ekkert fast, svona pot í bumbu." Ég bráðnaði við þetta og þáði.

Eftir matinn kom prinsessan svo og nuddaði létt yfir bumbuna og sagði "Nú líður þér betur", Já sagði ég. Er ekki frá því að hafa liðið betur. Enda annað varla hægt.


Enn tapar KR...

KR hefur ekki unnið Keflavík á útivelli ansi langan tíma. Í dag töpuðu mínir menn 4-2 eftir að hafa náð að jafna í 2-2 eftir að Keflavík komst í 2-0. Það ætlar að verða þannig enn eitt árið að við KR-ingar lendum í vandræðum. KR er með miklu betra lið en svo að við eigum að vera að tapa öllum leikjum. 

Annars vil ég benda á hið margrómaða og stórglæsilega KR blað sem er fullt af jákvæðu efni.

Ekki veitir af...


"White trash" í 15 mín...

Ég náði þeim einstaka árangri að verða "white trash" í 15 mínútur. Þökk sé Nonna Quest klipparanum mínum. Sagan er að ég hef verið með alskegg í smá tíma og ákvað að láta það fjúka. Nonni tók kyndingu á mig og klippti svona biker / white trash dæmi. Ég tók mynd af því og birtist hún hér.

Hvernig er það, er biker/white trash lúkkið að virka?

 White trash


Ef ég væri ísbjörn...

Þá myndi ég ekki fara í sumarfrí til Íslands!

Fjölhæfir ljósmyndarar á Morgunblaðinu...

Hann Árni Sæberg vinur minn á Morgunblaðinu er klárlega með fjölhæfari ljósmyndurum landsins. Á myndinni að neðan er hann að taka myndina af ritstjóraskiptunum á gamla Mogga en hann er líka að taka mynd af sér taka mynd af ritstjóraskiptunum á gamla Mogg, eins og sést á texta undir myndinni.

Maður spyr sig hvernig hann fer að þessu. Klárlega fjölhæfur í meira lagi.

 

Sæberg

 


Ég hitti Viggo...

Ég fór á foropnun á, Skovbo, sýningu Viggo Mortensen í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag. Viggo virkaði a mig sem mesti öðlingur. Var feiminn og hlédrægur og náði sér ekki á flug fyrr en hann fór í reykpásu útá svalir. Hann talaði um Ísland og sagði að Ísland væri fallegt land. Hann er ágætur ljósmyndari og sýnir á sýningunni myndir af trjám og görðum.

Viggo er best þekktur fyrir að bjarga heiminum frá tortímingu í Lords og the Rings seríunni. Hann var mjög fjarri því hlutverki í dag en þessu geðgóði Dani á heiður skilið fyrir upplegg sitt á sýningunni. Hann selur allar myndirnar og allur peningurinn fer til Náttúrverndarsamataka Íslands. Þá kemur út bók og allur ágóðinn af henni fer til Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Viggo á auðvitað nóg af peningum sem frægur Hollywood-leikari og þarf ekki að hafa áhyggjur af krónum og aurum. En hugsunin er góð og maðurinn jarðbundið góðmenni.

Ég festi mér eina af myndunum af sýningunni. Myndin er græn með hringlaga ramma utan um myndefnið. Ansi skemmtileg. Myndin er auðvitað ekkert meistaraverk en hún er tekinn af  náunga úr Lord of the Rings og sem slík er hún frábær.

Mér taldist til að á opnunni voru ca 50% að skoða myndirnar hans og ca  50% að skoða hann sjálfan. Ég var í fyrrnefnda hópnum.

Langaði að fá að taka mynd af honum og Auði dóttur minni en fannst það of plebbalegt. Honum hefur örugglega ekki fundist það. Enda lítið annað en enskumælandi Dani.

 

Viggo Mortensen í dag.

 


Geðveikur fréttaljósmyndari (W. Eugene Smith 1918-1978)...

"Sticks and stones may brake my bones" - ég gleymi aldrei þessari setningu úr ljósmyndabók W. Eugene Smith sem ég tel einn besta fréttaljósmyndara sem hefur lifað. Smith myndaði mikið á stríðstímum og varð smám saman geðveikur á allri þeirri hörmung sem hann upplifði. Eitt sinn kom hann ásamt herflokknum sem hann fylgdi að um árs gömlu barni. Það var illa slasað vegna sprengju sem hafði sprungið nálægt því. Hann segir: "Það var ekkert sem við gátum gert. Heilinn sást í gegnum sár á höfðinu. Barnið dó í örmum eins hermannsins. "

Það er skiljanlegt að menn sturlist við slíkar aðstæður. Hann lenti oft í hrikalegum aðstæðum og horfði á bandaríska hermenn deyja. Hann fékk svo sprengjubrot í sig og varð að yfirgefa stríðið. Hann reyndi að verða venjulegur borgari aftur en martraðir og ofskynjanir herjuðu á hann alla tíð. Hann sat löngum í bíl sínum og vildi ekki hitta neinn. Líf hans var að þurrkast út og það eina sem hann hafði til að sýna líf sitt voru myndir af frá stríðssvæðum og inn á milli rómantískar myndir úr stórborgum.

Smith var blaðaljósmyndari sem lagði allt undir og endaði á deyja  einsamall. Hann skildi eftir sig þúsunda frábærra ljósmynda sem sýna svart á hvítu þá hörmung sem stríð er fyrir mannkynið.

Smith tók hreinræktaðar fréttamyndir en að auki stillti hann stundum upp myndum (ekki af vígvellinum) til að ná meiri áhrifum í myndir sínar. Eins lík er hér að neðan af líkvöku. Þá fékk hann konurnar til að raða sér á ákveðinn hátt til að ná sem bestri mynd. Fyrir neðan hana má sjá myndina þar sem hermaður heldur á barni sem dó í höndum hans. Gríðarlega magnþrunginn mynd.

Það eru til margar bækur um W. Eugene Smith og hvet ég alla sem una góðum myndum að kaupa sér bók með myndum eftir hann. Sá sem skoðar þær verður ekki samur á eftir.

Líkvaka

Barn í örmum hermanns


Frábær "Sjómannadagsauglýsing" frá Landsbankanum...

Ég vildi hrósa Ara Magg og þeim sem sáu um sjómannadagsauglýsingu Landsbankans. Myndin er tær snilld og er öllum sem að komu til sóma. Hún slær allar aðrar tilraunir annarra fyrirtækja út og á heima í ramma uppá vegg.

Myndin er auðvitað fótosjoppuð út og suður en gullið í myndinni er að maður sér ekki að átt hefur verið við hana. Mér telst til að þrjár myndir séu saman settar og ansi margir tímar í litgreiningunni. En allt smellur þetta saman og er verðlaunaefni ásamt Landsbankadeildarvefborðanum.

Ari Magg hefur sýnt það að hann er líklega frambærilegasti auglýsingaljósmyndari landsins  og eftirvinnslan hans er með ólíkindum. Ég ætla klárlega að skrá mig á Photoshop 101 námskeið til að læra handtökin.

Ég man í "gamla daga" þegar maður reyndi að taka "einn ramma sem ræður öllum (léleg myndlíking, One ring who rules them all)" og svo var sem minnst átt við myndina. Það eru andstæðurnar við auglýsingaljósmyndun. Að taka eina mynd sem er fullkominn. Það er talið skömm og margir hafa lent í vandræðum eftir að breyta fréttamyndum. Fréttamynd má ekki breyta eða laga, þá er hún ekki fréttamynd lengur. 

Það eru margir tilkallaðir sem yfirburðarljósmyndarar á fróni. Hérna er minn stuttlisti:

Fréttaljósmyndarar:
Óli K. Magg. - yfirburðarmaður
Rax - sem þolir ekki blaðamannafundi
GVA - sem kenndi mér fagið
ÞÖK - frábær í myndbyggingu
Kristinn Ingvarsson - enginn kann portrett-tæknina betur

Auglýsingaljósmyndarar:
Ari Magg - frábær eftirvinnsla
Grímur Bjarnason - konungur auglýsingaljósmyndara
Atli - massaðar uppstillingar

Barna og fjölskylduljósmyndarar:
Erling Ó. Aðalsteinsson - höfuð og herðar yfir aðra

Fleiri eiga auðvitað sæti á listanum - þið vitið hverjir þið eruð.


Lögregluofbeldi...

Ef einhver stelur á má handtaka viðkomandi og svo kalla til foreldra eða forráðamann ef hann er ungur. Það má hins vegar EKKI taka viðkomandi hálstaki án tilefnis og ýta til og frá eins og tuskudúkku. Það er virðingaleysi við samborgara.

Lögreglan þarf að svara til á skilmerkilegan hátt afhverju fullorðinn lögreglumaður tekur ungling hálstaki þegar hann er ekki að veita mótspyrnu eða gera sig líklegan til slíks.

Það virðist vera að lögreglan sé að gera sig æ óvinsælli meðal samborgara og þeir virðast hafa gleymt að þeirra starf er að þjónusta samborgara sína en ekki beita valdhroka.

Það er kannski eitthvað meira í myndbandinu en sést á youtube og verður fróðlegt að sjá hvort svo sé. Sé það ekki tilfellið þá verður lögreglan að segja viðkomandi lögreglumanni upp. Það verður að vera traust á milli handhafa valdsins og borgara landsins.

Hálstak


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband